Viðskipti erlent

Harvardprófessor býst við fjölda þjóðargjaldþrota

Harvardprófessorinn Kenneth Rogoff segir að sívaxandi opinberar skuldir muni líklega valda því að nokkur fjöldi þjóða verði gjaldþrota. Rogoff er þekktur fyrir það að hafa spáð fyrir hruni nokkurra bandarískra stórbanka árið 2008.

Í umfjöllun á Bloomberg-fréttaveitunni um málið er haft eftir Rogoff að í kjölfar bankakreppu fylgi venjulega fjöldi þjóðargjaldþrota nokkrum árum síðar. Hann segir að fjármálamarkaðir munu á endanum keyra upp vexti á skuldabréfum og að Evrópulönd á borð við Grikkland og Portúgal muni þá lenda í miklum vandræðum.

„Það er mjög mjög erfitt að tímasetja gjaldþrotin en þau munu gerast," segir Rogoff. „Efnuðu þjóðirnar, Þýskaland, Bandaríkin og kannski Japan munu upplifa hægan vöxt. Þær þjóðir munu herða sultarólina þegar vandamálin vegna vaxtanna skella á. Þær munu ráða við stöðuna."

Grikkland er nefnt sem dæmi þar sem efnahagsvandræði þeirrar þjóðar hafa skekið fjármálamarkaði. Fram kemur að erlendar skuldir Grikklands í heildina séu nú fimmfalt hærri en skuldir Rússlands þegar sú þjóð varð gjaldþrota árið 1998 og Argentínu þegar sú þjóð lenti í greiðslufalli árið 2001.

Japan er sú þjóð í heiminum sem skuldar mest. Rogoff segir að fjármálastefna Japans sé orðin stjórnlaus. Reiknað er með að opinberar skuldir Japans á næsta ári muni samsvara samanlagðri landsframleiðslu Bretlands, Frakklands og Ítalíu eða um 10,7 trilljónum dollara, það er 10.700 milljörðum dollara.

Naomi Fink sérfræðingur hjá Tokyo-Mitsubishi er ekki sammála um hve mikill vandinn er hjá Japan. Fink bendir á að skuldir Japans séu sjálfbærar þar sem meir en 90% af ríkisskuldabréfum landsins eru í eigu innlendra fjárfesta og þar með minni áhætta á fjármagnsflótta frá landinu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×