Innlent

Sveitastjóri Reykhólahrepps útilokar ekki afsögn

SB skrifar
Óskar Steingrímsson, sveitastjóri í Reykhólahreppi. Mynd/www.bb.is
Óskar Steingrímsson, sveitastjóri í Reykhólahreppi. Mynd/www.bb.is

"Þetta eru jú mistök og það getur vel verið að hægt sé að skrifa þau á mig," segir Óskar Steingrímsson sveitastjóri í Reykhólahreppi. Úrskurðarnefnd um sveitastjórnarkosningarnar komst í gær að þeirri niðurstöðu að kosningarnar væru ógildar þar sem láðist að auglýsa þær í Flatey.

Hópur bænda í hreppnum hittist í dag á íbúafundi þar sem málið var rætt og sagði Steinar Pálmason, sem rekur ferðaþjónustu í hreppnum, að málið væri skandall og ábyrgðin lægi hjá sveitastjóranum. "Þetta mun kosta hreppinn háar fjárhæðir að endurtaka kosningarnar, fólk hérna er reitt."

Hafsteinn Guðmundsson, íbúi í Flatey, sem kærði kosningarnar var ánægður með niðurstöðuna. "Það er gott að réttindi fólks skuli vera virt. Við fengum engar upplýsingar um kosningarnar og margir hérna töldu að það væri bara einn listi sem kæmi fram og því tilgangslaust að kjósa."

Óskar Steingrímsson segir rétt að ábyrgðin á framkvæmd kosninganna liggi hjá honum, sveitastjóranum. "Við erum vanir að senda út dreifibréf vegna kosninganna en í þessu tilfelli fór það of seint af stað. Ég þurfti að fara í jarðarför hjá mágkonu minni og þegar ég kom til baka var orðið of seint að senda bréfið, því ber ég ákveðna ábyrgð."

Óskar segir hreppsnefndina koma saman á mánudaginn þar sem næstu skref verði ákveðin. Spurður hvernig hann hyggist axla sína persónulegu ábyrgð segir Óskar: "Ef menn vilja mig ekki áfram er það meinalaust af minni hálfu - ég er þó tilbúinn að halda áfram störfum er vilji er til þess."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×