Innlent

Breiðband Símans verður að Ljósneti

Sævar Freyr Þráinsson Forstjóri Símans segir uppbyggingu Símans á Ljósneti sínu mun hagkvæmari en uppbyggingu Gagnaveitunnar á hennar ljósleiðaraneti. Fréttablaðið/Arnþór
Sævar Freyr Þráinsson Forstjóri Símans segir uppbyggingu Símans á Ljósneti sínu mun hagkvæmari en uppbyggingu Gagnaveitunnar á hennar ljósleiðaraneti. Fréttablaðið/Arnþór

Á næstu tveimur árum ætlar Síminn að tengja um 42 þúsund heimili við nýtt Ljósnet Símans, eða um 60 til 70 prósent heimila á höfuðborgarsvæðinu. Ljósnetið gefur aðgang að allt að 100 Mb hraða á sekúndu. Um er að ræða umfangsmiklar breytingar á Breiðbandi Símans. Með þeim er Síminn tilbúinn fyrir allar þær tæknilegu breytingar sem fyrirsjáanlegar eru á Netinu næstu tíu árin, svo sem tilkomu þrívíddarsjónvarps, að sögn Sævars Freys Þráinssonar, forstjóra Símans.

Tæknin felur í sér notkun á ljósleiðurum sem þegar eru til staðar og liggja inn í breiðbandsgötuskápa eða beint inn á heimili. „Þannig er notast við ljósleiðara 90 til 95 prósenta af leiðinni heim til notandans. Síðan notum við koparinn sem fyrir er það sem eftir er leiðarinnar. Það hefur orðið gríðarleg framþróun á þessari tækni á undanförnum árum. Við höfum fylgst vel með henni og beðið eftir að hún yrði nógu hagkvæm og vel útfærð. Nú er hún orðin það, sem er tímapunktur sem við vissum að myndi koma.“

Sævar segir tilkomu Ljósnetsins verða til mikilla hagsbóta fyrir neytendur. Verðið verði mjög lágt miðað við það sem fyrir er í boði á markaðnum. Gert er ráð fyrir að mánaðarverð miðað við 50 Mb/s og 10 GB af erlendu niðurhali verði 3.650 krónur.

Hann segir uppbyggingu á Ljósnetinu hagkvæmari en uppbygging Gagnaveitunnar á sínu ljósleiðaraneti. „Okkar uppbygging mun kosta 790 milljónir sem dreifist á tvö ár. Það er nálægt þeirri upphæð sem fyrir liggur í fjárfestingu í Breiðbandinu. Þetta eru lágar upphæðir, miðað við þá tólf milljarða sem hafa farið í uppbyggingu ljósleiðaranets Gagnaveitunnar, sem nær einungis til 20 þúsund heimila.“

Ekki er gert ráð fyrir að nýtt starfsfólk verði ráðið til starfa hjá Símanum vegna framkvæmdanna. „Við nýtum þann mannskap sem við höfum til að tengja ljósnetið inn á heimili fólks. Hins vegar munu samstarfsaðilar okkar í uppsetningu njóta góðs af þessu, auk þess að fjöldi fyrirtækja hefur viðurværi af þjónustu í gegnum Netið, svo ýmis afleidd störf geta skapast við tilkomu Ljósnetsins,“ segir Sævar.

holmfridur@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×