Enski boltinn

Giggs: Vona að Beckham njóti leiksins en ekki of mikið samt

Ómar Þorgeirsson skrifar
David Beckham.
David Beckham. Nordic photos/AFP

Gamli refurinn Ryan Giggs fer fögrum orðum um fyrrum liðsfélaga sinn hjá Manchester United, stórstjörnuna David Beckham, í nýlegu viðtali.

Beckham mætir sínum gömlu félögum með AC Milan í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu annað kvöld og Giggs, sem er meiddur og getur ekki tekið þátt í leiknum, vonast til þess að Beckham verði til friðs.

„Við verðum að passa okkur að vera ekki að gefa þeim óþarfa aukaspyrnur fyrir utan vítateiginn okkar því Beckham getur auðveldlega skrúfað boltann upp í hornið og skorað. Ég vona annars að hann njóti leiksins en ekki of mikið samt. Ég vona að hann verði til friðs," er haft eftir Giggs í breskum fjölmiðlum í dag.

Giggs telur að hinn 34 ára gamli Beckham eigi enn mikið inni og geti haldið áfram að spila í nokkur ár til viðbótar.

„Beckham hefur alltaf verið mikið í sviðsljósinu en hann hefur ekkert breyst sem persóna og ég tala reglulega við hann í síma. Hann hefur líka alltaf hugsað vel um sig og er alltaf í toppformi. Ég held að hann gæti vel spilað í þrjú eða fjögur ár til viðbótar," segir Giggs.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×