Viðskipti erlent

Trichet styður hertari reglur um skuldatryggingamarkaðinn

Jean- Claude Trichet seðlabankastjóri Seðlabanka Evrópu (ECB) segir að hann styðji það að settar verði hertari reglur um skuldatryggingamarkaðinn. Trichet segir mikilvægt að þessi markaður sé ekki misnotaður til spákaupmennsku.

Fjallað er um málið í Financial Times. Þar er haft eftir Trichet að hann sé sammála þeim sem segja að eftirlitsaðilar með markaðinum eigi að geta haft í höndunum skilvirkt regluverk sem geri þeim kleyft að rannsaka mála og samhæfa aðgerðir sínar. „Við þurfum meira gegnsæi á skuldatryggingamarkaðina og það þurfa fjárfestar einnig," segir Trichet.

Trichet segir að forgangverkefni eigi að vera að koma á fót miðstöðvum þar sem viðskiptin eru samþykkt. Slíkt myndi aðstoða við að auka gegnsæið á skuldatryggingamarkaðinum og draga úr viðleitni til að taka mikla áhættu.

Eftirlitsaðilar beggja vegna Atlantshafsins hafa rætt um það frá fjármálahruninu árið 2008 hvernig koma ætti böndum á skuldatryggingamarkaðinn. Enn sem komið er hefur ekkert áþreifanlegt gerst. Hinsvegar hefur Michael Barnier framkvæmdastjóri fyrir innri markað ESB nú lofað að rammalöggjöf verði sett fram fyrir haustið. Í henni verður sérstök áhersla lögð á regluverk í kringum skuldatryggingar á opinberum skuldum þjóða, það er ríkisskuldabréfum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×