Viðskipti innlent

Ásta Dís verður framkvæmdastjóri Fríhafnarinnar

Ásta Dís Óladóttir.
Ásta Dís Óladóttir.

Ásta Dís Óladóttir mun á næstu dögum taka við starfi framkvæmdastjóra Fríhafnarinnar á Keflavíkurflugvelli samkvæmt tilkynningu Isavia ohf.

Ásta Dís Óladóttir er með meistaragráðu í stjórnun og stefnumótun og doktorspróf í alþjóðlegum viðskiptum frá Viðskiptaháskólanum í Kaupmannahöfn.

Hún hefur undanfarin ár starfað við Háskólann á Bifröst sem dósent í viðskiptafræði, forstöðumaður rannsóknaseturs um alþjóðleg viðskipti og forseti Viðskiptadeildar, en hún var fyrst kvenna til að gegna stöðu deildarforseta í viðskiptadeild háskóla hér á landi.

Hún var áður aðjúnkt við Viðskiptadeild Háskóla Íslands ásamt því sem hún gegndi stöðu markaðs- og kynningarstjóra deildarinnar í um 4 ár. Þá hefur hún sinnt stundakennslu við Háskólann í Reykjavík og hefur starfað undanfarin ár við Viðskiptaháskólann í Kaupmannahöfn.

Ásta Dís hefur flutt fjölmarga fyrirlestra og erindi á fræðasviði sínu hér á landi og á erlendum vettvangi og birt greinar í innlendum og erlendum tímaritum. Hún hefur víðtæka reynslu og hefur m.a. gegnt stjórnunarstöðum á ýmsum sviðum atvinnulífsins, ásamt því að koma að rekstri, þ.m.t. verslunarrekstri.

Hún hefur á undanförnum árum setið í stjórnum fjölmargra fyrirtækja hér á landi sem og erlendis. Hún er stjórnarformaður SpKef sparisjóðs, varaformaður stjórnar Frumtaks, fjárfestingasjóðs ásamt því að sitja í fjárfestinganefnd sjóðsins og situr í stjórn Húsasmiðjunnar.

Þá var Ásta Dís stjórnarformaður Mentor, Norrænna mynda, Heilsuverndarstöðvarinnar og fleiri fyrirtækja, átti sæti í endurskoðunarnefnd Landsvirkjunar og háskólaráði Háskólans á Bifröst.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×