Innlent

Ásbjörn segir sig úr þingmannanefndinni

Ásbjörn Óttarsson.
Ásbjörn Óttarsson.

Ásbjörn Óttarsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins hefur sagt sig úr þingmannanefndinni sem fjalla á um skýrslu rannsóknarnefndarinnar um bankahrunið. Á dögunum komst í fréttir að Ásbjörn hefði greitt sér ólöglegan arð úr fyrirtæki sínu. Í yfirlýsingu frá Ásbirni segir að hann hafi ákveðið að segja sig frá störfum í nefndinni, til að tryggja fullan frið um störf hennar.

„Ég hef gert skilmerkilega grein fyrir því hvernig þeim málum var háttað og gert allt sem í mínu valdi stendur til að leiðrétta þau mistök sem gerð voru," segir ennfremur í tilkynningunni. Ásbjörn segir að þau mál sem nefndin muni hafa til umfjöllunar séu þess eðlis að ekkert megi verða til að draga athyglina frá þeirri mikilvægu vinnu sem nefndinni er ætlað að inna af hendi, „þar með talin persónuleg mál einstakra nefndarmanna."




Tengdar fréttir

Ásbjörn játar brot á lögum - Bjarni segir brotið ekki hafa áhrif

Ásbjörn Óttarsson, þingmaður sjálfstæðismanna, viðurkenndi í Kastljósi Sjónvarps í gær að hafa brotið lög þegar hann greiddi sér og konu sinni tuttugu milljónir króna í arð árið 2007, fyrir árið 2006, þegar eigið fé fyrirtækisins var neikvætt.

Ásbjörn hagnaðist um tugmilljónir

Ásbjörn Óttarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks í fjárlaganefnd Alþingis, greiddi sér og konu sinni 65 milljónir króna í arð frá útgerðarfélaginu Nesveri árið 2008. Hann var framkvæmdastjóri Nesvers og eini stjórnarmaður. Greint var frá því í DV að sama ár tapaði fyrirtækið 574 milljónum króna og eigið fé var neikvætt um 157 milljónir.

Endurgreiddi arðgreiðslu

Ásbjörn Óttarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur skilað 20 milljóna arðgreiðslu úr fyrirtæki sínu fyrir árið 2006, en þá var eiginfjárstaða fyrirtækisins neikvæð og því um ólöglegan gjörning að ræða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×