Íslenski boltinn

Matthías: Sérstaklega gaman að vinna KR

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Mynd/Arnþór
Mynd/Arnþór

Matthías Vilhjálmsson, fyrirliði FH, var kampakátur eftir sigurinn á KR í kvöld. Matthías átti fínan leik en FH-ingar spila betur með hverjum leik og áttu sinn besta leik í kvöld.

„Það er alltaf gaman að vinna leiki og sérstaklega gaman að vinna KR. Þetta var gríðarlega mikilvægur leikur fyrir bæði lið. Nú erum við komnir í toppbaráttuna og þar viljum við vera," sagði Matthías brosmildur.

„Þessi leikur og leikurinn gegn Fylki eru þeir bestu hjá okkur í sumar. Við áttum mjög góðar 60-70 mínútur í dag. Svo féllum við of langt til baka en heilt yfir fannst mér þetta vera sanngjarn sigur."

Vendipunktur leiksins var þegar Moldsked braut ótrúlega klaufalega af sér í teignum. Þá var KR líklegra en lenti undir þar sem Tommy Nielsen skoraði örugglega úr vítinu.

„Ég veit ekki hvað markvörðurinn var að fara út í þennan bolta. Þetta var klárt víti. Ég leyfði svo Tommy að taka vítið þar sem hann átti afmæli um daginn," sagði Matthías og glotti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×