Danska blaðið Jyllandsposten hefur reist kílómetralanga öryggisgirðingu um höfuðstöðvar sínar í Árósum.
Ástæðan er hótanir sem blaðinu hafa borist vegna Múhameðsteikninganna svokölluðu. Það var leyniþjónusta dönsku lögreglunnar sem ráðlagði girðinguna.
Hún er tveir og hálfur metri að hæð og á henni eru margar öryggismyndavélar. Upp við girðinguna að innanverðu hefur verið komið fyrir stórum grjóthnullungum sem eiga að stöðva bíla sem hugsanlega yrði ekið á hana.
Listamennirnir sem teiknuðu Múhameð hafa einnig fengið hótanir og eru undir lögregluvernd. Reynt hefur verið að myrða tvo þeirra.