Viðskipti innlent

Vissi að lánin væru ólögleg fyrir níu árum

Framkvæmdastjóra Samtaka fjármálafyrirtækja virðist hafa verið fullkunnugt um að gengistrygging íslenskra lána væri brot á lögum - í bréfi sem hann sendi alþingi fyrir níu árum.

Eins og kunnugt er ríkir alger óvissa um lögmæti gengistryggðra lána eftir að héraðsdómur dæmdi slíkt bílalán ólöglegt um miðjan febrúar. Ekkert bendir til þess að málið fái flýtimeðferð fyrir Hæstarétti, óvissunni verður því varla eytt fyrr en næsta vetur.

Skiptar skoðanir voru um niðurstöðu Héraðsdóms. Eins og við mátti búast var Guðjón Rúnarsson talsmaður fjármálafyrirtækja óhress með niðurstöðu Héraðsdóms. Í Fréttablaðinu þann 15. febrúar kveðst hann "ganga út frá því að fjármálafyrirtækin hafi talið sig vera að veita lögleg lán."

Ekki er þetta þó í fullu samræmi við hans eigin orð í bréfi sem hann sendi efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis í apríl 2001 og fréttastofa er með afrit af. Bréfið er umsögn um nýtt frumvarp til laga um vexti og verðtryggingu. Þar segir sami Guðjón Rúnarsson framkvæmdastjóri Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja, eins og samtökin hétu þá, berum orðum að benda megi á:

„að eins og lögin eru í dag (og verða að óbreyttu frumvarpi) er óheimilt að tengja lánssamninga í íslenskum krónum við erlenda mynt."

Umrædd lagagrein fór óbreytt inn í endanleg lög. Því virðist framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja hafa verið sannfærður um það fyrir níu árum - að gengistrygging íslenskra lána væri ólögleg.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×