Enski boltinn

Gullmedalía George Best seldist á tæpar 28 milljónir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Verðlaunapeningurinn sem seldist á tæpar 28 milljónir.
Verðlaunapeningurinn sem seldist á tæpar 28 milljónir. Mynd/AFP

Knattspyrnuáhugamaður eignaðist í dag eftirsóttasta gullverðlaunapening Manchester United mannsins George Best þegar hann bauð 156 þúsund pund í gullmedalíuna á uppboði í Englandi.

Kaupandinn var því tilbúinn að eyða tæpum 28 milljónum íslenskra króna í þennan sögulega verðlaunapening sem Best fékk fyrir að vinna Evrópukeppni meistaraliða með Manchester United fyrir 42 árum.

George Best fór á kostum með Manchester United í 4-1 sigri á Benfica í úrslitaleiknum 29. maí 1968 en leikurinn var framlengdur og fór fram á Wembley í London. Best kom United í 2-1 í upphafi framlengarinnar með því að sóla sig í gegnum vörn Portúgalana og lagði með þessu marki sínu grunninn að sigrinum.

Uppboðshaldarinn Bonhams seldi allar þrettán verðlaunapeninga frá ferli George Best á 200 þúsund pund sem eru um 35,5 milljónir íslenskra króna.

Gullverðlaunin frá því í úrslitaleiknum í Evrópukeppni meistaraliða 1968 var metin á 90 til 120 þúsund pund og fékkst því mun meira fyrir hana er spáð var fyrirfram.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×