Innlent

Sóley Tómasdóttir: „Við skulum bara sjá hvernig fer“

Boði Logason skrifar
Sóley Tómasdóttir er oddviti Vinstri grænna í Reykjavík.
Sóley Tómasdóttir er oddviti Vinstri grænna í Reykjavík. Mynd/Anton Brink
„Ég veit það ekki, það verður bara að koma í ljós," segir Sóley Tómasdóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna í Reykjavík, aðspurð um hvernig henni lítist á nýja borgarstjórann, Jón Gnarr. Nýr meirihluti Samfylkingar og Besta flokksins var kynntur upp á þaki í fjölbýlishúsi í Breiðholtinu klukkan fimm í dag.

Sóley segir það erfitt að geta sagt til um það hvernig henni lítist á nýja meirihlutann. „Það er ekkert komið í ljós, nema nokkrir fyrirsjánlegir hlutir hver verður borgarstjóri og hver verður formaður borgarráðs. Ég er mjög spennt að sjá fyrir hvað þessi meirihluti stendur," segir Sóley og bætir við að henni finnist það umhugsunarefni að búið sé að tilkynna nýjan meirihluta áður en málefnin hafi verið kynnt.

Hún segir hugmyndafræðina vera númer eitt, tvö og þrjú. „Það er það sem borgarbúar vilja vita, allavega vil ég sem borgarbúi vita, hvernig þeir hyggjast stjórna borginni en ekki hverjir sitja í hvaða stólum."

Sóley segist ekki hafa ímyndað sér fyrir ári síðan að Jón Gnarr myndi verða borgarstjóri eftir næstu kosningar. „Þetta er mjög skrýtin staða, við skulum bara sjá hvernig fer."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×