Handbolti

Sverre: Áttum ekki von á því að þetta yrði svona auðvelt

Elvar Geir Magnússon skrifar
Sverre Jakobsson.
Sverre Jakobsson.

Sverre Jakobsson átti góðan leik í vörn Grosswallstadt þegar liðið burstaði Hauka í EHF-bikarnum í handbolta í kvöld. Þýska liðið fer áfram með samanlagða þrettán marka forystu úr leikjunum tveimur.

„Ég var einmitt að vonast til þess að við myndum mæta svona til leiks í þennan leik. Við vorum að berjast fyrir því á síðasta tímabili að komast í þessa keppni og það tókst. Svo mætum við þessu Haukaliði sem við eigum að vinna örugglega samkvæmt pappírnum," sagði Sverre.

„Við áttum í erfiðleikum í fyrri leiknum. Það þýðir ekki bara að vita það að við séum betri, það þarf að sýna það. Við erum skrefinu á undan þeim. Það hafa margir spurt mig hvort þetta hafi verið vanmat í fyrri leiknum en ég tel svo ekki vera. Við vorum bara lélegir á meðan Haukar voru skynsamir og eiga hrós skilið fyrir þann leik."

„Við vorum ákveðnir í að láta það endurtaka sig og fyrri hálfleikurinn í dag skóp sigurinn. Við vorum yfir allan tímann og höfðum bara gaman að þessu. Nú erum við komnir áfram og það var markmiðið."

Er ekki gaman fyrir þig að koma heim til Íslands og spila? „Rosalega gaman. Manni fannst pressan á manni vera meiri en í venjulegum leik og ég sagði við strákana að það væri ekki möguleiki á að ég myndi fyrirgefa þeim ef þeir myndu spila svipaðan leik og síðast. Sem betur fer þá svöruðu þeir kallinu mínu," sagði Sverre.

„Það var gaman að spila þennan leik og sem betur fer var þetta öruggur sigur hjá okkur. Þetta varð aldrei neitt stress. Við áttum ekki von á því að þetta yrði svona auðvelt en við stjórnuðum leiknum frá upphafi til enda."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×