Viðskipti innlent

Kraftvélar gjaldþrota, kúnnar flestir dauðir og tekjurnar farnar

Kraftvélar og tengd fyrirtæki hafa verið lýst gjaldþrota og var beiðni um gjaldþrotaskipti lögð fram nú klukkan ellefu. Fyrirtækið hefur um árabil, verið eitt öflugasta fyrirtækið í innflutningi og þjónustu við vinnuvélar og verktaka og verið með umboð fyrir Komatsu vinnuvélar.

Greint er frá þessu á vefsíðu Viðskiptablaðsins. Þar segir Ævar Þorsteinsson, eigandi Kraftvéla, þetta afar dapra niðurstöðu, en þetta sé afleiðing af stöðvun útboða og verklegra framkvæmda í landinu.

Það sé því full seint hjá ráðamönnum að fara að tala um útboð núna þegar all flestir verktakar landsins séu komnir á hausinn.

„Kúnnarnir mínir eru allflestir dauðir, tekjurnar farnar og það kemur ekkert í kassann þannig að spilaborgin hrundi," segir Ægir í samtali við Viðskiptablaðið.

Í þessu gjaldþroti falla eignarhaldsfélagið Karl, Kraftvélar, Kraftvélaleigan og KFD sem var systurfélag Kraftvéla í Danmörku og hefur þegar verið lýst gjaldþrota.

Ævar Þorsteinsson hefur átt og rekið Kraftvélar frá árinu 2005.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×