Handbolti

Harpa Sif: Spila meira með hjartanu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Árósum skrifar
Mynd/Ole Nielsen
Harpa Sif Eyjólfsdóttir sagði að íslensku stelpurnar hafi ekki spilað eins og lagt var upp með fyrir leikinn gegn Króatíu í kvöld. Ísland tapaði, 35-25, í sínum fyrsta leik á EM í Danmörku og Noregi.

„Þetta var engan veginn það sem við ætluðum okkur. Við byrjuðum ekki nógu vel og það verður rosalega erfitt að hanga í þeim þegar ekkert virtist ganga," sagði Harpa.

„Vörnin var ekki að smella nógu vel. Við hefðum þurft að vera miklu grimmari og nýta færin okkar betur. Í sókninni hefðum við þurft að nýta færin okkar betur og við vorum að láta markverði þeirra verja allt of mikið frá okkur."

„Við þurfum að róa okkur fyrr í sóknarleiknum. Við vorum að klára sóknirnar okkar allt of fljótt en svo gekk okkur ágætlega þegar við stilltum upp í sókninni. Við erum með hraða leikmenn á miðjunni sem eru duglegir að finna glufur á vörninni. Það er því betra að hægja stundum aðeins á."

„Svo þarf einfaldlega að spila meira með hjartanu. Við ætlum að mæta brjálaðar í næsta leik. Það þýðir ekkert annað."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×