Innlent

Regnboginn verður að Bíó Paradís

Regnboginn gengur í endurnýjun lífdaganna þann 15. september næstkomandi.
Regnboginn gengur í endurnýjun lífdaganna þann 15. september næstkomandi.
Regnboginn við Hverfisgötu gengur í endurnýjun lífdaganna þann 15. september næstkomandi og fær heitið Bíó Paradís - heimili kvikmyndanna. Bíó Paradís mun hafa á dagskrá sinni nýjar áhugaverðar kvikmyndir víðsvegar að, auk hverskyns eldri mynda erlendra sem innlendra, hýsa kvikmyndahátíðir og standa fyrir hverskyns kvikmyndatengdum viðburðum.

Þá er stefnt að því að koma á reglulegum skólasýningum í húsinu þar sem markmiðið er að efla þekkingu og menntun á þessari mikilvægu listgrein. Þar verður einnig að finna veitingahús og verslun með mynddiska og annan kvikmyndatengdan varning.

„Bíó Paradís verður því nokkurskonar hjarta kvikmyndamenningar í landinu; samfélag kvikmyndaunnenda og áfangastaður allra þeirra sem vilja eiga góðar stundir í afslöppuðu umhverfi sem angar af andrúmslofti kvikmyndanna," segir í tilkynningu.

Opnunarmynd Bíó Paradísar verður tónleikamyndin Backyard eftir Árna Sveinsson og Sindra Kjartansson, sem bar sigur úr býtum á heimildamyndahátíðinni Skjaldborg í vor. Þá mun Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík taka húsið yfir í ellefu daga frá 23. september til og með 3. október. Nánar verður tilkynnt um dagskrána í septemberbyrjun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×