Viðskipti erlent

Dönskum bönkum fækkar úr 159 í 122

Danskur banki Sumir fóru á hausinn, öðrum var lokað af öðrum ástæðum.
nordicphotos/AFP
Danskur banki Sumir fóru á hausinn, öðrum var lokað af öðrum ástæðum. nordicphotos/AFP
Fjármálakreppan hefur heldur betur sett mark sitt á bankastarfsemi í Danmörku. Frá árinu 2007 hefur nærri fjórða hverjum banka í landinu verið lokað.

Frá þessu er skýrt á viðskiptavef danska dagblaðsins Berlingske Tidende. Þar er einnig fullyrt að þessi þróun muni halda áfram og bönkum fækka enn frekar næstu misserin.

Árið 2007 voru 159 bankar starfræktir í Danmörku, en nú eru þeir 122. Þennan tíma hefur því 37 bönkum verið lokað.

Ekki hafa þeir þó allir farið á hausinn. Sumir hafa að vísu orðið gjaldþrota, en öðrum hefur verið lokað af öðrum ástæðum, oftast til að spara í rekstri og þá oft með sameiningu við aðra nálæga banka.

Viðskiptavinir eru ekki allir ánægðir með þessa þróun, en fjármálavitringar margir hverjir segja þetta tvímælalaust af hinu góða – bankar hafi verið alltof margir í Danmörku fyrir og löngu kominn tími á að fækka þeim.- gb





Fleiri fréttir

Sjá meira


×