Sport

Íþróttamaður ársins útnefndur í 54. skiptið í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ólafur Stefánsson var Íþróttamaður ársins í fyrra.
Ólafur Stefánsson var Íþróttamaður ársins í fyrra. Mynd/Stefán
Íþróttamaður ársins 2009 verður valinn í kvöld á Grand Hótel Reykjavík og er þetta í 54. sinn sem Samtök íþróttafréttamanna velja þann íþróttamann sem hefur skarað fram úr á árinu.

Atkvæðagreiðsla félagsmanna í Samtökum íþróttafréttamanna er leynileg og fer þannig fram að hver félagsmaður SÍ setur saman lista með nöfnum tíu íþróttamanna sem honum þykja hafa skarað fram úr á árinu.

Kjörinu verður lýst í kvöld klukkan 19.40 í beinni útsendingu í Ríkissjónvarpinu. Áður en kjöri íþróttamanns ársins verður lýst mun ÍSÍ afhenda viðurkenningar til þeirra íþróttakarla og -kvenna hjá sérsamböndum sínum sem þótt hafa skarað fram úr á árinu 2009. Þetta verður í fimmtánda sinn sem Samtök íþróttafréttamanna og ÍSÍ standa að sameiginlegri hátíð sem nær hápunkti þegar Íþróttamaður ársins 2009 verður útnefndur.

Á aðfangadag var gefið út hvaða tíu íþróttamenn urðu efstir í kjörinu. Íþróttamaður ársins 2008, Ólafur Stefánsson, er einn af þremur á topp tíu listanum sem hafa verið kosnir Íþróttamaður ársins en Ólafur getur í kvöld orðið aðeins annar maðurinn í sögu kjörsins til þess að verða Íþróttamaður ársins í fjórða sinn.

Hinir tveir á topp tíu listanum sem hafa verið kosnir Íþróttamenn ársins eru knattspyrnumaðurinn Eiður Smári Guðjohnsen (2004 og 2005) og handboltamaðurinn Guðjón Valur Sigurðsson (2007).

Aðrir sem koma til greina sem Íþróttamaður ársins 2009 eru Björgvin Páll Gústavsson (handbolti), Helena Sverrisdóttir (körfubolti), Helga Margrét Þorsteinsdóttir (frjálsar íþróttir), Hólmfríður Magnúsdóttir (knattspyrna), Jakob Jóhann Sveinsson (sund), Jón Arnór Stefánsson (körfubolti) og Þóra Björg Helgadóttir (knattspyrna).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×