Handbolti

Reynir: Þeir áttu allir frábæran leik í kvöld

Stefán Árni Pálsson skrifar
Reynir Þór Reynisson, þjálfari Fram.
Reynir Þór Reynisson, þjálfari Fram. Mynd/Stefán
Reynir Þór Reynisson, þjálfari Fram, var að vonum mjög ánægður með leik sinna manna í kvöld en Framarar rústuðu Val 40-23 í þriðju umferð N1-deild karla.

„Þetta var frábær frammistaða hjá okkur í kvöld. Loksins sá ég samheldni, samstöðu og rétt hugafar hjá strákunum og það skilaði sér í frábærum leik hjá okkur. Hver einasti leikmaður í liðinu átti frábæran leik hér í kvöld," sagði Reynir.

„Markmiðið fyrir leik var að vinna sigur hér en þegar við sáum að þeir voru farnir að gefast upp þá var ekkert annað í stöðunni en að gefa í."

„Það vill oft gerast þegar lið eru komin með ákveðið forskot að menn falla niður á hælana, gefa eftir og hleypa andstæðingunum aftur inn í leikinn en það gerðist ekki í kvöld og strákarnir kafsigldu þá bara," sagði Reynir.

Það einkenndi leik heimamanna í kvöld að liðið var virkilega vel stemmt, leikmenn börðust mikið fyrir hvern annan og leikgleðin skein af andlitum Framara.

„Það sem skóp þennan sigur hjá okkur var mikil liðheild, frábær vörn og góð markvarsla. Við vorum í raun hættulegir á öllum sviðum og ég er hrikalega ánægður með strákana," sagði Reynir sérstaklega sáttur eftir leikinn í kvöld.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×