Enski boltinn

Wayne Rooney verður ekki með á móti Valencia

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Wayne Rooney og Rio Ferdinand.
Wayne Rooney og Rio Ferdinand. Mynd/AP
Wayne Rooney verður ekki með Manchester United í Meistaradeildinni í vikunni en liðið er á leiðinni til Valencia á Spáni þar sem liðið mætir heimamönnum á miðvikudaginn. Rooney er meiddur á ökkla samkvæmt tilkynningu frá félaginu.

Rooney meiddist í 2-2 jafntefli á móti Bolton í gær en honum var skipt útaf á 61. mínútu leiksins. Meiðslin eru ekki talin vera mjög alvarleg en þó næginlega slæm til þess að Sir Alex Ferguson, stjóri United ákvað að hvíla hann í leiknum við Valencia sem er á toppi spænsku deildarinnar.

Sir Alex Ferguson þarf að glíma við fráföll fleiri sterkra leikmanna því Ryan Giggs meiddist aftan í læri á móti Bolton og þá eru þeir Antonio Valencia (ökkli), Michael Carrick (hásin) og Owen Hargreaves (hné) allir á meiðslalistanum til langs tíma.

Manchester United gerði markalaust jafntefli í fyrsta leiknum í Meistaradeildinni á móti Rangers og þarf því nauðsynlega að fá eitthvað út úr þessum leik á móti Valencia. Spænska liðið er á toppi riðilsins eftir 4-0 sigur á Bursaspor í fyrstu umferð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×