Erlent

Vilja yfirgefa Afganistan 2014

Anders Fogh Rasmussen vonast til að ná sátt um að draga herlilð NATO úr Afganistan fyrir 2014.NordicPhoto/AFP
Anders Fogh Rasmussen vonast til að ná sátt um að draga herlilð NATO úr Afganistan fyrir 2014.NordicPhoto/AFP

Miklar væntingar eru bundnar við leiðtogafund Atlants­hafsbandalagsins, NATO, sem hófst í Lissabon í gær, en þar verður meðal annars reynt að ná samstöðu um að draga herlið út úr Afganistan fyrir árið 2014.

Þá verða samskipti við Rússa einnig í brennidepli en þíðu er að gæta í þeim málum þar sem Dimitri Medvedev, forseti Rússlands, er meðal gesta fundarins. Barack Obama Bandaríkjaforseti sagði að þessi fundur gæti hleypt nýju lífi í bandalagið.

Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóri NATO, vonast til að geta tilkynnt að á næsta ári verði byrjað að fækka í herliðinu, sem nú telur um 130.000 manns, og raunhæft verði að ljúka verkefninu árið 2014.

Talið er að NATO miði við að afganski herinn verði kominn með stjórn á ástandinu áður en herlið bandalagsins yfirgefi landið.

Rasmussen segir að NATO muni ekki hlaupast frá ókláruðu verki.

„Ég held að allar aðildarþjóðir séu tilbúnar að skuldbinda sig verkefninu eins lengi og til þarf,“ sagði hann.

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra situr fundinn fyrir hönd Íslands. - þj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×