Formúla 1

Button: Sá sem klikkar minnst verður meistari

Jenson Button hjá McLaren er núverandi meistari.
Jenson Button hjá McLaren er núverandi meistari. Mynd: Getty Images
Heimsmeistarinn Jenson Button hjá McLaren segir að þolgæði verði lykillinn að því að ná meistaratitlinum í Formúlu 1 í ár, en fjórir ökumenn auk hans eiga möguleika á titlinum. Mark Webber er efstur í stigamótinu á undan Lewis Hamilton, Alonso, Button og Sebastian Vettel. Button varð í öðru sæti á eftir Fernando Alonso í síðustu keppni og bætti stöðu sína í stigamótinu. "Ég nýtti tækifærið báðum höndum og náði í átján stig á degi þar sem Lewis fékk núll, Mark átta og Sebastian tólf. Núna skoðar maður stigatölfuna og hugsar. Vá, hvernig getur þetta verið svona jafnt? Eftir Spa sögðu allir að þetta yrði á milli Lewis og Mark, en ég sé fyrir mér að þetta verði slagur til síðasta móts", sagði Button í frétt á autosport.com, en vitnað er í umsögn Buttons á vefsíðu hans. "Ég held að við höfum séð að enginn einn ökumaður á eftir að labba í burtu með titilinn, þetta verður slagur til enda. Maður verður að taka hvert mót fyrir sig og ég held að ökumenn muni ekki bara safna einhverjum stigum. Það er ekki eðli kappakstursökumanns. Ég fann fyrir þessu í fyrra , þar sem ég vissi að ég þyrfti bara að ná í ákveðið magn af stigum. En trúlega reynir það meira á, en að taka á öllu sem maður á og stefna á toppárangur." "Í fyrra var ég fjórtándi á ráslínu í Interlagos og hafði engu að tapa og liðsfélagi minn var fremstur á ráslínu. Ég tók á öllu og það frelsaði hugann og sú reynsla mun hjálpa mér í ár. Það er mikilvægt að vera þolgóður og bíllinn verður að vera traustur. Þá verður að vanda vel valið varðandi uppsetningu bílsins og keppnisáætlunarinnar. Við erum keppnismenn og munum því keppa, en pressan er á öllum. Engin okkar má gera mistök. Sá sem klikkar minnst verður meistari", sagði Button m.a. á vefsvæði sínu samkvæmt frétt autosport.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×