Lífið

Tilikum fékk ekki að koma til Íslands

Vildi koma til Íslands. Háhyrningnum Tilikum, sem drap þjálfarann sinn, var meinað að koma til Íslands 1992. Hallur Hallsson, sem vann að komu Keiko, segir mikla vinnu hafa fylgt því að koma skepnunni til landsins.
Vildi koma til Íslands. Háhyrningnum Tilikum, sem drap þjálfarann sinn, var meinað að koma til Íslands 1992. Hallur Hallsson, sem vann að komu Keiko, segir mikla vinnu hafa fylgt því að koma skepnunni til landsins.

Háhyrningnum Tilikum var neitað um að koma til Íslands árið 1992 þegar erlendir dýraverndunarsinnar óskuðu eftir því að fá að flytja hann hingað. Tilikum hefur verið til umfjöllunar í heimspressunni undanfarna daga eftir að hann drap þjálfarann sinn, Dawn Brancheau, á sýningu í SeaWorld í Orlando í vikunni.

Í grein í Morgunblaðinu frá árinu 1992 er greint frá því að leitað hafi verið eftir leyfum hjá íslenskum yfirvöldum fyrir því að flytja Tilikum til landsins en því hafi verið hafnað sökum sjúkdómahættu og af dýraverndunarsjónarmiðum. Sex árum síðar lenti hins vegar Hollywood-stjarnan Keiko á flugvellinum í Vestmannaeyjum.

Hallur Hallsson, sem vann að komu Keiko til Íslands, kannast ekki við umsókn Tilikum en hann segir að þeir sem stóðu að komu Keiko hafi sótt um sín leyfi til landbúnaðarráðuneytisins en ekki sjávarútvegsráðuneytisins eins og háttur hafði verið á, háhyrningar séu nefnilega spendýr en ekki fiskar.

„Þetta var mikil vinna, að fá Keiko til Íslands, það kom fjöldi fólks að þessu verkefni og þetta var mjög kostnaðarsamt,“ segir Hallur.

Tilikum var fangaður af skipsverjum Guðrúnar HF í október 1983 ásamt tveimur öðrum háhyrningum í Berufirði og var um tíma til sýnis í Sædýrasafninu í Hafnarfirði. Hann var síðan seldur til Bandaríkjanna en íslenskir háhyrningar voru feikilega vinsælir á fyrri hluta áttunda áratugarins eftir að slíkar veiðar voru bannaðar í Kyrrahafinu 1972. Vitað er um sex íslenska háhyrninga sem hafa náð miklum vinsældum í sjávardýragörðum, fjórir þeirra eru enn á lífi.- fgg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.