Viðskipti erlent

Bílflak af botni stöðuvatns selt á tæpar 50 milljónir

Sagan er ævintýri líkust en eftir að hafa legið í 73 ár á botni stöðuvatns var bílflak selt á uppboði í París fyrir 48 milljónir kr. Hinsvegar verður að geta þess að umrætt bílflak var af gerðinni Bugatti Type 22.

Áður en til uppboðsins kom var bílflakið metið á rúmar 12 milljónir kr. Hinsvegar buðu tveir menn, Evrópumaður og Bandaríkjamaður, svo ákaft í flakið að á endanum var það slegið á 48 milljónir kr. Greint er frá þessu á börsen.dk

Það var árið 1967 sem kafari fann Bugatti flakið á botni svissneska stöðuvatnsins Lago Maggiore skammt frá bænum Ascona. Frá þeim tíma hefur verið vinsælt hjá köfurum að skoða þetta flak á botni vatnsins og hlutir úr því hafa horfið á liðnum árum, meðal annars eitt af dekkjunum.

Ekkert er vitað um tildrög þess að Bugatti bílinn hafnaði í vatninu á sínum tíma en íbúar Ascona hafa í gegnum árin sett fram ýmsar hugmyndir og kenningar um það.

Bílflakið fékk að liggja, að mestu óhreyft, í vatninu þar til að ungur kafari, Damiano Tamagi, lenti í grófri líkamsárás í Ascona sem kostnaði hann lífið árið 2008. Sjö félagar hans ákváðu þá að bjarga flakinu, selja það og stofna minningarsjóð um Damiano fyrir andvirði sölunnar.

Þeir tveir sem buðu mest í flakið höfðu ólíkar hugmyndir um hvað þær ætluðu að gera við það. Bandaríkjamaðurinn sem tapaði baráttunni ætlaði að gera bílinn upp. Evrópumaðurinn sem á nú flakið ætlar hinsvegar að stilla því upp til sýnis í núverandi mynd.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×