Fótbolti

Fyrirliði Ítala búinn að semja við lið frá Dúbæ

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Fabio Cannavaro
Fabio Cannavaro Mynd/AP
Fabio Cannavaro, fyrirliði heimsmeistara Ítala, hættir bæði með landsliðinu og að spila í ítölsku deildinni eftir HM í Suður-Afríku þar sem hann reynir að verða fyrsti fyrirliðinn til þess að lyfta heimsbikarnum tvisvar sinnum.

Hinn 36 ára gamli Fabio Cannavaro er búinn að skrifa undir tveggja ára samning við Al Ahli sem er lið frá Dúbæ í Sameinuðu arabísku furstadæmunum.

Fabio Cannavaro bætti í fyrra landsleikjamet Paolo Maldini og hefur alls leikið 132 landsleiki fyrir Ítalíu frá árinu 1997. Hann hefur meðal annars spilað með þremur af stærstu félögum heims á ferlinum, Internazionale, Juventus og Real Madrid og hafði snúið aftur til Juventus frá Madrid fyrir síðasta tímabil.

Það var haldið að Cannavaro ætlaði að klára ferillinn hjá Napoli þar sem hann byrjaði ferillinn og lék á árunum 1988 til 1995 en miðvörðurinn lét freistast að tilboðinu frá Dúbæ. Það kemur ekki fram hvað Cannavaro fær fyrir að eyða næstu tveimur árum með Al Ahli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×