Enski boltinn

Nolan, fyrirliði Newcastle: Leikmennirnir í sjokki

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kevin Nolan, fyrirliði Newcastle.
Kevin Nolan, fyrirliði Newcastle. Mynd/Nordic Photos/Getty
Kevin Nolan, fyrirliði Newcastle, segir að leikmenn liðsins séu í sjokki eftir að stjórinn Chris Hughton var rekinn frá félaginu í gær. Hughton þótti ekki nógu reynslumikill stjóri en hann hafði komið liðnu upp í úrvalsdeildina á ný og liðið er sem stendur í 12. sæti í henni.

„Chris var niðurbrotinn og það fór ekki fram hjá neinum," sagði Kevin Nolan við The Sun. „Það segir samt mikið um hvern mann hann hefur að geyma að þrátt fyrir að hann væri mjög svekktur með að vera að fara þá gaf hann sér tíma í að segja við mig og Joey [Barton] hvað væri mikilvægt að við ættum gott tímabil," sagði Nolan.

„Það var mikil reisn yfir því hvernig hann yfirgaf félagið og hvernig hann bar sig þegar hann var stjóri," sagði Nolan.

„Okkur hefur ekki gengið neitt sérstaklega vel að undanförnu en við erum samt um miðja töflu og hann sagði okkur að hann hefði ennþá trú á okkur og væri viss um að við myndum standa okkur vel," sagði Nolan.

Chris Hughton.Mynd/Nordic Photos/Getty
„Hann kvaddi alla starfsmenn á vellinum og ætlar sér að koma til baka seinna til þess að kveðja leikmennina og óska þeim alls hins besta," sagði Nolan.

„Við erum allir ósáttir með að Chris sé farinn. Hann hjálpaði mörgum leikmönnum að koma ferli sínum aftur í gang bæði sem þjálfari og sem stjóri. Það líkaði öllum vel við Chris og hann var vinsæll ekki bara hjá leikmönnunum heldur hjá öllum í félaginu," sagði Nolan.

„Við munum aldrei gleyma því þegar við unnum B-deildina á síðasta tímabili og við þurfum að halda áfram að standa saman eins og hann fékk okkur til að gera. Chris byggði upp liðsheildina og hjálpaði félaginu í gegnum erfiða tíma," sagði Nolan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×