„Þar sem þetta er verst er eins og verið sé að koma inn í land dauðans,“ segir Ólafía Aðalsteinsdóttir, starfsmaður útibúaþjónustu Landsbankans, um þær aðstæður sem mættu sjálfboðaliðum í hreinsunarstarfi undir Eyjafjöllum í vikunni. Hún segir að víða megi sjá gras og annan gróður stinga sér upp úr öskunni, en annars staðar sé stemningin eins og eftir kjarnorkusprengingu. Ekki sjáist annað en svart og grátt í umhverfinu.
Ólafía var í um 100 manna hópi starfsmanna Landsbankans sem lagði íbúum svæðisins lið við öskuhreinsun í vikunni. Um tíundi partur starfsmanna bankans fór til þessara starfa, hóf vinnu snemma að morgni og vann fram undir kvöld. Heimildin til þess er sögð í takt við nýja stefnu um sjálfboðastarf starfsmanna, sem sé afrakstur af stefnumótunarvinnu bankans.
Hópurinn gaf sig fram á Heimalandi og laut eftir það verkstjórn heimamanna í hreinsunarstarfinu. Starfsmannafélag Landsbankans, bauð fram aðstoð sína þegar skipulögð öskuhreinsun hófst á svæðinu, en fjölmargir hópar hafa komið að því starfi. - óká