Innlent

Aðstandendur Hannesar viðstaddir í Héraðsdómi

Andri Ólafsson skrifar

Þáttaskil urðu í rannsókninni á morðinu á Hannesi Helgasyni í dag þegar karlmaður á þrítugsaldri var úrskurðaður í gæsluvarðhald vegna rökstudds gruns um að hann eigi aðild að andláti Hannesar. Aðstandendur Hannesar voru viðstaddir í Héraðsdómi Reykjaness þegar úrskurðurinn var kveðinn upp.

Maðurinn sem var handtekinn heitir Gunnar Rúnar Sigurþórsson og var sjálfur kunnugur Hannesi. Hafði meðal annars verið gestur á heimili hans. Hann var handtekinn daginn eftir að Hannes fannst látinn og haldið yfir nótt en sleppt að því loknu. Hann var svo aftur handtekinn í gær þegar ný gögn komu fram í málinu sem gerðu það að verkum að rökstuddur grunur er talinn vera fyrir hendi um að hann eigi aðild að andláti Hannesar.

Gunnar Rúnar hefur sjálfur neitað sök í öllum yfirheyrslum og mun áfrýja gæsluvarðhaldsúrskurðinum.

Tvær systur Hannesar og frændi hans voru í Héraðsdómi Reykjaness í dag og fylgdust með þegar Gunnar var leiddur í járnum fyrir dómara

Lögreglan segir að ekki sé unnt að greina nánar frá þessum nýju gögnum sem leiddu til þess að Gunnar var handtekinn og úrskurðaður í gæsluvarðhald að öðru leyti en því að þau séu árangur vettvangsvinnu tæknideildar lögreglunnar. Niðurstöður úr lífsýnum sem send voru til Svíþjóðar liggja ekki fyrir en hugsanlegt er að einhverjar bráðabirgðaniðurstöður liggi fyrir jafnvel í næstu viku.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×