Fótbolti

Bjóðið okkur 39 milljarða og þá getum við kannski talað saman

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Nordic Photos/Getty
Pep Guardiola, þjálfari Barcelona, hlær bara af fréttunum um að Evrópumeistarar Inter Milan ætli að reyna að kaupa Lionel Messi frá Barcelona eftir þrjú ár. Massimo Moratti, forseti Inter, tjáði sig á dögunum um framtíðarplan sitt að reyna að kaupa Messi frá spænsku meisturunum sumarið 2013.

Lionel Messi tók þessu ekki alvarlega og taldi að Massimo Moratti hafi bara verið að grínast. Messi sagði að það væri heiður fyrir sig að Inter hefði áhuga en hann hefði engan áhuga á því að spila fyrir annað félag en Barcelona.

Moratti svaraði á móti að öllu gríni fylgdi einhver alvara og að hann lifi enn í voninni um að fá besta knattspyrnumann í heimi til að spila fyrir Inter.

Pep Guardiola er fullviss um það að Massimo Moratti eigi enga möguleika á að tæla Messi til Ítalíu.

„Ef Moratti lætur okkur frá 250 milljónir evra (39 milljarða íslenskra króna) og Leo vil fara frá okkur þá getum við kannski talað saman. Ég veit ekki betur en að Messi vill hvergi annarsstaðar vera en hjá Barcelona og Messi mun alltaf eiga síðasta orðið í þessu máli," sagði Pep Guardiola.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×