Íslenski boltinn

Bjarni: Þetta var leikurinn sem við urðum að vinna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bjarni Guðjónsson.
Bjarni Guðjónsson. Mynd/Vilhelm
Bjarni Guðjónsson var kátur eins og aðrir KR-ingar eftir ótrúlega endurkomu og 3-2 sigur á Fram á Laugardalsvellinum í kvöld. Þetta var fyrsti sigur liðsins í Pepsi-deild karla - í sjöttu tilraun og útlitið var ekki bjart í stöðunni 2-0 fyrir Fram þegar sextán mínútur voru eftir.

„Við sýndum svakalegan karakter en þetta er það sem við höfum í liðinu. Það var kominn heldur betur tími á það að við myndum sýna hvað við gætum," sagði Bjarni Guðjónsson, fyrirliði KR, eftir leikinn.

„Mér fannst við heilt yfir miklu betri allan leikinn. Það var ótrúlegt að við skulum fara inn í hálfleikinn 1-0 undir því mér fannst við vera miklu betri þótt að við höfum ekki skapað mörg færi. Það býr svo mikið í þessu liði og þetta sprakk út hjá okkur í kvöld," sagði Bjarni.

„Við höfðum trú á þessu allan tímann. Í síðasta leik var smá vonleysi í liðinu en við töluðum um það í hálfleik að sama á hverju gengi þá tæki það bara fimm mínútur að komast aftur inn í leikinn," sagði Bjarni.

„Það er mikil tiltrú í liðinu og núna erum við komnir á sporið. Þarna sýndum við gæðin sem eru í liðinu og við erum með frábært lið. Við þurfum að fara að koma okkur upp töfluna og það var núna eða aldrei. Ég veit að við erum búnir að segja það nokkrum sinnum en þetta var virkilega leikurinn sem við urðum að vinna," sagði Bjarni að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×