Innlent

Merki um olíu eða gas verði könnuð á botni Skjálfanda

Kristján Már Unnarsson skrifar
Flatey á Skjálfanda
Flatey á Skjálfanda Mynd/GVA
Tveir sérfræðingar leggja til í nýrri skýrslu um olíuleit við Norðurland að botn Skjálfandaflóa verði rannsakaður til að meta líkur á því hvort þar leynist olíu- eða gaslindir.

Íslensk stjórnvöld hafa skilgreint þrjú svæði sem hugsanleg olíusvæði Íslands, Hatton-Rockall suðaustur af landinu, sem reyndar þrjú önnur ríki telja sig eiga rétt á, Drekann austur af landinu, sem er eina svæðið sem Íslendingar hafa sett í formlegt útboð, og loks er það Gammurinn, en svo er nefnt setlagasvæði út af Norðurlandi. Svæðið er út af Skjálfanda og Eyjafirði og reyndar óskaði erlent olíufélag fyrir um tuttugu árum um leyfi til að bora þar en fékk synjun frá íslenskum stjórnvöldum.

Lengi hefur verið vitað um gasuppstreymi í Öxarfirði og ummerki á hafsbotni á Skjálfandaflóa benda einnig til þess að þar streymi upp gas. Fyrir Alþingi liggur þingsályktunartillaga sex þingmanna Sjálfstæðisflokks um að hafnar verði rannsóknir á því hvort þarna sé olía eða gas og nú hefur Orkustofnun birt skýrslu sem tveir sérfræðingar Íslenskra orkurannsókna, þeir Bjarni Richter og Karl Gunnarsson, gerðu að hennar beiðni.

Þeir Bjarni og Karl leggja til í skýrslu sinni sem næsta skref að tekin verði sýni úr setlögum á hafsbotni á sex stöðum á Skjálfanda og einum stað úti fyrir Eyjafirði. Rannsakað verði hvort sýnin geymi ummerki um gasuppstreymi, og hvort um sé að ræðaa olíugas. Út frá þeim niðurstöðum verði síðan lagt mat á hvort líkur séu á þarna finnist olíu- eða gaslindir.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×