Innlent

Skýrsla Rannsóknarnefndar birt í dag

MYND/Stefán Karlsson.

Rannsóknarnefnd Alþingis um aðdraganda og orsök falls íslensku bankanna árið 2008 afhendir forseta Alþingis skýrslu sína í dag klukkan tíu í efrideildarsalnum í Alþingishúsinu. Þegar forseta Alþingis hefur verið afhent prentað eintak af skýrslu rannsóknarnefndarinnar mun þingforseti opna fyrir aðgang að skýrslunni á vef Alþingis klukkan 20 mínútur yfir tíu. Prentaða útgáfan verður síðan til sölu í bókaverslunum en hún er um 2000 síður að lengd. Vefútgáfan er hinsvegar öllu ítarlegri og því á þriðja þúsund blaðsíður að lengd.

Rannsóknarnefndin stendur síðan fyrir blaðamannafundi í Iðnó sem hefst klukkan hálfellefu þar sem niðurstöður nefndarinnar verða kynntar. Eftir daginn í dag munu fulltrúar nefndarinnar ekki tjá sig frekar um efni skýrslunnar. Einnig verður gerð grein fyrir skýrslu vinnuhóps sem hafði það hlutverk að svara því hvort skýringar á falli íslensku bankanna og tengdum efnahagsáföllum mætti að einhverju leyti finna í starfsháttum og siðferði.

Þingfundur hefst síðan á Alþingi klukkan þrjú síðdegis. Þar munu formenn stjórnmálaflokkanna gefa yfirlýsingar í tilefni af birtingu skýrslunnar. Almenn þingumræða um skýrsluna hefst svo á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×