Innlent

Þjónustugjald á gesti í Þingvallaþjóðgarði

Þingvellir. Nýta á heimildir til gjaldtöku af ferðamönnum sem nota aðstöðuna á Hakinu við Almannagjá. Ólafur Örn Haraldsson þjóðgarðsvörður segir ferðaþjónustuna taka þessu vel. Sómi okkar sé í veði að hafa myndarlega aðkomu að Þingvöllum.
Þingvellir. Nýta á heimildir til gjaldtöku af ferðamönnum sem nota aðstöðuna á Hakinu við Almannagjá. Ólafur Örn Haraldsson þjóðgarðsvörður segir ferðaþjónustuna taka þessu vel. Sómi okkar sé í veði að hafa myndarlega aðkomu að Þingvöllum.

„Sú stund er upprunnin að það sé eðlilegt að taka gjald fyrir veitta þjónustu,“ segir Ólafur Örn Haraldsson, þjóðgarðsvörður á Þingvöllum, um þá samþykkt Þingvallanefndar að nýta lagaheimildir til að taka gjald af ferðamönnum í þjóðgarðinum.

Ólafur segir eingöngu rætt um að taka gjald fyrir aðgang að aðstöðunni á Hakinu á barmi Almannagjár en ekki annars staðar í þjóðgarðinum. „Síðasta árið hefur verið mjög mikil uppbygging á Þingvöllum, meðal annars með átján salernum í tveimur húsum með öllum nýtísku búnaði. Þetta hefur kostað gríðarmikla peninga,“ segir Ólafur.

Að sögn Ólafs eru stundum tólf til fimmtán rútur með ferðamenn á alltof litlu bílaplani við Hakið. Ferðaþjónustan kalli eftir bættri þjónustu og eðlilegt sé að greitt sé fyrir þá þjónustu sem sé á Hakinu; leiðsögn, margmiðlun, salernisaðstöðu, bílastæði og fleira, sérstaklega þegar um sé að ræða fólk á vegum atvinnufyrirtækja.

„Ég tek skýrt fram að það er ekki verið að loka þjóðgarðinum eða taka aðgangsgjald heldur er þetta eingöngu gjald fyrir veitta þjónustu,“ undirstrikar þjóðgarðsvörður, sem leggur til að gjaldið verði 200 til 300 krónur á hvern gest.

Ólafur kveðst hafa kynnt málið fyrir fjölda hagsmunaaðila enda verði málið ekki unnið nema í samvinnu við þá. „Ég hef alltaf fengið góðar viðtökur. Ferðaþjónustan leggur bara áherslu á að þetta verði gjald sem allir borgi. Kannanir sýna að menn eru alveg sáttir við að greiða lágmarksupphæð svo lengi sem hún fari í endurbætur á þjónustunni og náttúrunni. Og það er okkar sómi að við höfum myndarlega aðkomu að Þingvöllumm.“

- gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×