Innlent

Geislavarnir og Brunamálastofnun mæla rafmengun

Helga Arnardótttir skrifar

Geislavarnir ríkisins og Brunamálastofnun hafa byrjað mælingar á rafsegulsviði af völdum rafmagnstenginga og stendur til að mæla um nokkur hundruð íbúðarhús um land allt. Athugunin er tilkomin vegna fjölda ábendinga fólks um mögulega skaðsemi rafsegulsviðs frá slíkum tengingum.

Við sögðum frá hjónum í fréttum okkar sem telja að of hátt rafsegulsvið í húsi þeirra síðustu fjögur ár hafi valdið bráðahvítblæði sem dóttir þeirra greindist með í fyrra. Rafsegulsviðið í húsi þeirra mældist áttfalt yfir viðmiðunarmörkum í svefnálmunni. Ekkert hefur verið sannað í þeim efnum en þó geta verið tengsl á milli bráðahvítblæðis og rafsegulmengunar.

Ákveðið var að bregðast við þessu og hafa Brunamálastofnun, sem á að sjá til þess að rafmagnstengingar í húsum séu réttar og Geislavarnir ríkisins hafið mælingar á rafsegulsviði í nokkur hundruð húsum á landinu.

Björn Karlsson forstöðumaður Brunamálastofnunar segir stofnunina vilji ganga úr skugga hvort rafsegulsvið sé of hátt í öðrum húsum.

Stofnunum tveimur hefur borist fjöldi ábendinga um mögulega rafsegulmengun í húsum alls staðar á landinu. Þorgeir Sigurðsson hjá Geislavörnum segir mælingar ekki hafa sýnt fram á neitt óeðlilegt enn sem komið er.

Hundruð mælinga hafi verið gerðar í kringum spennustöðvar á höfuðborgarsvæðinu og ekki eigi að stafa hætta af þeim í íbúðarhverfum.

Niðurstöður mælinga verða birtar í sumar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×