Enski boltinn

Þurftu að borga fyrirfram á Pizza Hut

Elvar Geir Magnússon skrifar
Anton Robinson.
Anton Robinson.

Hópur hörundsdökkra leikmanna hjá enska 2. deildarliðinu Bournemouth var beðinn um að borga máltíð sína fyrirfram á veitingastaðnum Pizza Hut þar í bæ. „Það er útaf því hvernig þið lítið út," sagði starfsmaður staðarins.

Venjan er hjá Pizza Hut að greitt er fyrir matinn eftir máltíðina. Eddie Mitchell, stjórnarformaður Bournemouth, er ekki sáttur við framkomuna í garð leikmanna sinna og segir sláandi hvernig öðruvísi er komið fram við fólk af öðrum kynþáttum.

Pizza Hut baðst í dag opinberlega afsökunar á atvikinu en neitaði því að þetta hafi haft eitthvað með kynþátt mannana að gera.

„Við pöntuðum okkar mat og svo kemur framkvæmdastjórinn við borðið okkar og spyr hvort við getum borgað fyrirfram. Við spurðum hvort það væri venjan og þá neitaði hann því," segir miðjumaðurinn Anton Robinson sem var einn af fimm leikmönnum sem voru beðnir um að borga fyrirfram.

Þegar leikmennirnir spurðu hvers vegna þeir væru beðnir um þetta svaraði framkvæmdastjóri staðarins: „Það er útaf því hvernig þið lítið út."

„Við áttuðum okkur strax á því sem var í gangi. Hópur af hvítum unglingum kom inn á staðinn strax á eftir okkur og þurfti ekki að borga fyrir sína máltíð fyrirfram. Eini hlutirinn sem var öðruvísi var húðliturinn," segir Robinson.

Leikmennirnir tilkynntu að þeir myndu glaðir borga reikninginn sinn þegar þeir hefðu lokið við máltíðina. Fengu þeir þá þau skilaboð að ef þeir myndu ekki greiða fyrirfram yrði hringt á lögregluna og þeim fylgt útaf staðnum.

„Við vorum allir snyrtilega klæddir enda meðvitaðir um það að þegar við förum saman út að borða erum við andlit liðsins. Við vitum að fólk þekkir okkur og við verðum að hegða okkur," segir Robinson.

Á endanum var lögreglan kölluð á staðinn og leikmennirnir fimm beðnir um að yfirgefa staðinn sem þeir gerðu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×