Fótbolti

Kaka: Ég verð betri með hverjum degi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kaka.
Kaka. Mynd/AP
Brasilíumaðurinn Kaka hefur ekki áhyggjur af formi sínu fyrir heimsmeistarakeppnina og segist vera tilbúinn að taka að sér leiðtogahlutverk í brasilíska landsliðinu.

Kaka er stærsta stjarnan í brasilíska landsliðinu en meiðsli og annað sáu til þess að hann átti ekkert stjörnutímabil á sinu fyrsta ári með Real Madrid.

„Ég verð betri með hverjum degi og meiðslin há mér ekki lengur. Ég get gert allt sem ég ætla mér og þegar við spilum fyrsta leikinn þá verð ég í flottu formi," sagði Kaka. Kaka var frá í 45 daga á seinni hluta tímabilsins eftir að hafa verið að glíma við meiðsli á mjöðm og í nára.

„Ég var áhyggjufullur til að byrja með því þessi meiðsli heftu mig mikið og ég var mjög stífur. Nú get ég hreyft mig miklu betur og eftir stanslausa sjúkraþjálfun þá verð ég flottur eftir tíu daga," sagði Kaka en Brasilía spilar fyrsta leikinn á HM á móti Norður-Kóreu 15. júní næstkomandi.

Kaka spilaði í 45 mínútur í 3-0 sigri á Simbabve í gær. „Þetta var ekki besti leikurinn minn með Brasilíu en þetta var samt jákvæður leikur fyrir mig. Ég gat gert margt á vellinum án einhverja vandamála," sagði Kaka eftir sinn fyrsta leik í meira en mánuð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×