Skoðun

Hvað varð um vestræna samvinnu?

Baldur Þórhallsson skrifar
Á kaldastríðsárunum bar vestræn samvinna, sem byggði á grunngildum lýðræðis, mannréttinda og friðar, sigurorð af alræðisstjórnum í Mið- og Austur-Evrópu. Samvinna lýðræðisríkja innan NATO og ESB lagði grunninn að þessum sigri. Samvinna Evrópuþjóða innan Evrópusambandsins hefur í dag tekið við því hlutverki sem vestræn samvinna gegndi svo giftusamlega í um hálfa öld. Samvinna þjóða innan ESB byggir á grunngildum lýðræðis, mannréttinda, markaðshagkerfis og réttláts ríkisvalds.

Þjóðir Evrópu hafa ákveðið að ESB gegni lykilhlutverki í að tryggja öryggi borgaranna með friðsamlegri samvinnu sín á milli án hernaðaruppbyggingar. Þannig hefur það orðið hlutskipti ESB að vera helsti vettvangur samvinnu Evrópuþjóða gegn ógnum samtímans eins og hryðjuverkum og umhverfisvá. Þjóðir Evrópu hafa einnig orðið ásáttar um að ESB stuðli að jöfnuði og réttlæti samhliða skilvirku markaðshagkerfi.

Markmið uppbyggingarstefnu ESB er að stuðla að bættum kjörum allra íbúa sambandsins - hvar sem þeir eru í sveit settir. Öryggishlutverk NATO er takmarkað við að draga úr ógn við ytri landamæri Evrópu eins og í Afganistan. Meginmarkmið samvinnu þjóða innan Evrópusambandsins er að stuðla að pólitísku, efnahagslegu og félagslegu öryggi íbúa sambandsins. NATO hefur fyrir margt löngu stigið til hliðar og afhent ESB þetta hlutverk. Vestræn samvinna heitir í dag Evrópusamvinna.




Skoðun

Sjá meira


×