Innlent

Rök friðarsinna enn mikilvæg

Áherslurnar eru aðrar en fyrir þrjátíu árum.fréttablaðið/Stefán
Áherslurnar eru aðrar en fyrir þrjátíu árum.fréttablaðið/Stefán

Samstarfshópur friðarhreyfinga efnir til blysfarar niður Laugaveginn í 31. sinn á Þorláksmessu. „Þetta er bæði falleg samverustund, rétt í miðri jólaösinni, og tengist þeim málefnum sem hæst bera hverju sinni í friðarmálum,“ segir Stefán Pálsson, einn af skipuleggjendum blysfararinnar.

Samstarfshópurinn minnir á að málstaður og rök friðarsinna skipti jafn miklu máli nú og fyrir þrjátíu árum. Stefán segir að áherslurnar nú séu þó aðrar heldur en fyrir þrjátíu árum. „Þegar menn voru að byrja á þessu í kringum 1980 stóð kalda stríðið hvað hæst.“

En hver verður áherslan í ár? „Ræðumenn hafa nokkuð frjálsar hendur. Núna er búin að vera spenna í Kóreu og umfjöllun um kjarnorkuafvopnun. Þetta verður frekar á alþjóðlegum nótum,“ segir Stefán og bætir við að menn setji þá gríðarlegu fjármuni sem fara í hernaðaruppbyggingu í heiminum í samhengi við fátækt og hungur.

Safnast verður saman á Hlemmi korter í sex og leggur gangan stundvíslega af stað klukkan sex.

Undanfarin ár hafa svipaðar göngur verið farnar á Akureyri og Ísafirði.- mmf




Fleiri fréttir

Sjá meira


×