Innlent

Íslendingar megi ekki fela umræðu um hugsanlegar hættur

Jón Hákon Halldórsson skrifar
„Ég hélt að við Íslendingar hefðum lært þá lexíu að það þjónar ekki hagsmunum okkar sem þjóðar að reyna að fela eða þagga niður vitneskju um hugsanlega hættur," sagði Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, í samtali við Reykjavík síðdegis á Bylgjunni.

Ólafur segir það ekki vera ábyrgt gagnvart öðrum ríkjum að á sama tíma og Íslendingar séu að undirbúa miklar björgunaraðgerðir vegna mögulegs Kötlugoss að þá sé upplýsingum haldið leyndum fyrir öðrum þjóðum.

Hann segist því ekki sjá eftir ummælum sínum á BBC í gær þar sem hann sagði meðal annars að gosið í Eyjafjallajökli væri aðeins létt æfing fyrir hugsanlegt Kötlugos. Ólafur Ragnar sagðist hins vegar skilja áhyggjur ferðaþjónustunnar.

Ólafur Ragnar sagðist ekki telja að ummæli sín væru ýkt. „Við vitum alveg í ljósi vitneskju vísindamanna og í ljósi sögunnar að einhvern tímann mun koma að því að Katla gýs," segir Ólafur Ragnar. Hann segist hins vegar vera sannfærður um það að íslenska ferðaþjónustan muni njóta góðs af þeirri mikliu alþjóðlegu umræðu sem hafi orðið um Ísland undanfarna daga.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×