Viðskipti erlent

Ráðherra varar við falli UBS bankans í Sviss

Eveline Widmer-Schlumpf dómsmálaráðherra Sviss hefur varað við því að UBS bankinn gæti fallið. Framtíð bankans mun ráðast af viðkvæmum samningaviðræðum sem eru í gangi í Bandaríkjunum í tengslum við umfangsmikla rannsókn á skattsvikum þar í landi.

UBS bankinn er stærsti banki Sviss og raunar er hann næst stærsti banki Evrópu. Fari svo að UBS falli myndi slíkt hafa víðtækar afleiðingar í för með sér fyrir bankakerfi Evrópu.

Widmer-Schlumpf lét fyrrgreind orð falla í viðtali við blaðið Le Matin Dimanche um helgina. „Aðgerðir UBS í Bandaríkjunum valda miklum vandræðum," segir Widmer-Schlumpf. „Ekki bara þar sem um lögbrot er að ræða heldur af því að þær ógna allri annarri starfsemi bankans."

Ennfremur segir ráðherrann að ef UBS falli í kjölfar þess að verða sviptur bankaleyfi sínu í Bandaríkjunum hefði slíkt umfangsmiklar afleiðingar fyrir efnahag og vinnumarkað Sviss.

Svissnesk og bandarísk stjórnvöld höfðu náð samkomulagi í skattamálinu þar sem gert var ráð fyrir að UBS gæfi upplýsingar um reikninga 4.500 Bandaríkjamanna hjá bankanum til skattrannsóknarlögreglunnar í Bandaríkjunum. Hinsvegar gekk nýlega dómur fyrir svissneskum dómstóli sem er þvert á þetta samkomulag og hefur sett það í uppnám.

Margir Svisslendingar eru stoltir af bankaleynd landsins og telja að svissnesk yfirvöld hafi ekki staðið í lappirnar gagnvart Bandaríkjamönnum í þessu skattamáli.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×