Fótbolti

L'Equipe: Didier Drogba handleggsbrotinn og missir af HM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Didier Drogba heldur hér um olnbogann.
Didier Drogba heldur hér um olnbogann. Mynd/AFP
Didier Drogba, fyrirliði Fílabeinsstrandarinnar handleggsbrotnaði í leiknum á móti Japan í dag samkvæmt heimildum franska blaðsins L'Equipe og verður af þeim sökum ekki með landsliðinu á Hm í Suður-Afríku sem hefst eftir viku.

Franska blaðið segir að Drogba hafi farið beint upp á sjúkrahús í Sion í Sviss þar sem leikurinn fór fram. Atvikið gerðist eftir aðeins fjórtán mínútna leik. Blaðið hefur heimildir fyrir niðurstöðunum úr myndatöku á hægri olnboganum hjá Drogba.

Didier Drogba lenti illa á hendinni eftir að hafa lent í tæklingu við Japanann Tulio Tanaka aðeins tveimur mínútum eftir að Drogba hafði skotið í Tulio og komið Fílabeinsströndinni í 1-0 í þessum síðasta undirbúningsleik þjóðanna fyrir HM.

Didier Drogba hefur skorað 44 mörk í 69 landsleikjum fyrir Fílabeinsstrandarinnar og algjör lykilmaður í landsliðinu en Fílabeinsströndin hefur verið talin bjartasta von Afríku í keppninni.

Þetta eru örugglega gríðarleg vonbrigði fyrir Drogba sjálfan ef rétt reynist því hann er orðinn 32 ára gamall og spilar því líkalega ekki á annarri heimsmeistarakeppni eftir þessa. Hann verður orðinn 36 ára þegar næsta keppni fer fram í Braslíu 2014.

Það virðist vera að einhver seinheppni fylgi leikmönnum Chelsea fyrir þessa heimsmeistarakeppni því tveir leikmenn liðsins og lykilmenn sinna þjóða, Michael Ballack hjá Þýsklandi og Michael Essien hjá Gana, verða ekki með í Suður-Afríku vegna meiðsla.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×