Viðskipti erlent

Kína réttir duglega úr kútnum

Hagvöxtur í Kína á síðasta ári fór fram úr björtustu vonum og er útlit fyrir að landið verði næst öflugasta efnahagsveldi jarðar innan tíðar.

Samkvæmt opinberum tölum mældist hagvöxtur í Kína árið 2009 8,7 prósent og er það meiri vöxtur en stjórnvöld höfðu áætlað. Hagvöxturinn jókst er líða tók á árið og á síðasta ársfjórðungi mældist hann 10,7 prósent. Þetta eru mikil umskipti en Kína varð illa úti í byrjun samdráttarskeiðsins árið 2008.

Kínverjar stefna nú hraðbyri að því að verða næst stærsta efnahagsveldi heimsins. Japanar verma nú það sæti en Bandaríkin eru stærsta efnahagsveldi heimsins. Japan mun tilkynna nýjustu tölur yfir landsframleiðslu í næsta mánuði og er búist við samdrætti um allt að níu prósent.

Hagstofustjórinn í Kína gerir þó lítið úr vextinum og bendir á að þrátt fyrir allt séu enn um 150 milljónir Kínverja undir fátæktarmörkum. Því verði enn um sinn að líta á Kína sem þróunarland.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×