Innlent

Tíkin Flækja hitti fálka í Laugardalnum

Erla Hlynsdóttir skrifar
Flækju fannst fálkinn spennandi leikfélagi.
Flækju fannst fálkinn spennandi leikfélagi.
Tíkin Flækja er aðeins sex mánaða gömul og fer daglega í göngutúr um Laugardalinn með eiganda sínum, Ásrúnu E. Magnúsdóttur. Þar hitta þær gjarnan hrafna og jafnvel gæsir en í gærmorgun blasti við þeim ný sjón þegar þær rákust á tignarlegan fálka með blóðuga bráð í klónum.

„Krummunum finnst ógurlega gaman að stríða henni. Þeir lenda á jörðinni, hún hleypur og þegar hún nálgast fljúga þeir aftur af stað," segir Ásrún.

Hún tók myndavél með í göngutúrinn í gær til að ná myndum af tíkinni litlu í fyrsta snjó vetrarins. Þegar þær komu auga á fugl ákvað Ásrún að sleppa Flækju lausri til að hún gæti leikið sér. „Ég hélt fyrst að þetta væri krummi en þegar hún hljóp af stað sá ég þetta gríðarlega vænghaf og sá að þetta var fálki sem flaug af stað með morgunmatinn sinn," segir Ásrún.

Nokkuð af fiðri og blóði var í snjónum eftir átök fálkans við bráðina en Ásrún var ekki viss um hvers konar fugl hann hafði veitt. Hún er ættuð úr sveit og hefur áður séð fálka utan þéttbýlis en aldrei inni í borginni.

Þar sem þær voru á göngu í nágrenni Fjölskyldu- og húsdýragarðsins í Laugardalnum hafði blaðamaður samband við starfsfólk þar sem kannaðist ekki við að nokkur fálki eða hænsn hafi sloppið út.

Hins vegar sagði gamalreyndur starfsmaður að á veturna flygi fálki daglega yfir garðinn og helstu veiðilendur í Laugardalnum. Vel má því vera að þarna hafi verið sami fálki á ferð sem sannarlega hafði erindi sem erfiði þennan daginn.

MYND/Ásrún E. Magnúsdóttir
MYND/Ásrún E. Magnúsdóttir
MYND/Ásrún E. Magnúsdóttir
MYND/Ásrún E. Magnúsdóttir
MYND/Ásrún E. Magnúsdóttir
MYND/Ásrún E. Magnúsdóttir
MYND/Ásrún E. Magnúsdóttir
MYND/Ásrún E. Magnúsdóttir
MYND/Ásrún E. Magnúsdóttir



Fleiri fréttir

Sjá meira


×