Innlent

Saksóknara leitað í hópi sérfræðinga Atlanefndarinnar

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Atli þarf að velja nýjan saksóknara.
Atli þarf að velja nýjan saksóknara.
Alþingi mun á næstu dögum þurfa að velja saksóknara til þess að sækja mál gegn Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, segist ætlast til þess af Atla Gíslasyni formanni þingmannanefndarinnar sem fjallaði um rannsóknarskýrsluna, að hann tilnefni saksóknara á næstu dögum.

Í lögum um landsdóm segir að Alþingi kjósi mann til að sækja málið af sinni hendi, og annan til vara, ef hinn kynni að forfallast. Enn fremur kýs Alþingi fimm manna þingnefnd með hlutfallskosningu til þess að fylgjast með málinu og vera saksóknara Alþingis til aðstoðar.

Samkvæmt heimildum Vísis hefur þingmannanefnd Atla Gíslasonar horft til þeirra lögspekinga sem störfuðu með nefndinni og líklegt að þeir verði beðnir um að taka að sér verkið. Það eru þau Jónatan Þórmundsson lagaprófessor, Bryndís Hlöðversdóttir, deildarforseti lagadeildar Háskólans á Bifröst, dr. Ragnhildur Helgadóttir, prófessor við lagadeild Háskólans í Reykjavík, Sigríður J. Friðjónsdóttir, vararíkissaksóknari og Bogi Nilsson, fyrrverandi ríkissaksóknari.

Jónatan Þórmundsson segist í samtali við Vísi ekki geta hugsað sér að taka að sér starfið. „Ég er náttúrlega alltaf í einhverjum verkefnum, en ég hef hvorki áhuga né treysti mér til að taka svona starf sem er umdeilt og erfitt," segir Jónatan Þórmundsson, fyrrverandi lagaprófessor við Háskóla Íslands. Jónatan segist hafa verið saksóknari á sínum yngri árum en vilji núna helst bara vinna í rólegheitum sem fræðimaður.

Vísir hefur gert ítrekaðar tilraunir til að ná í Atla Gíslason í kvöld en ekki haft erindi sem erfiði.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×