Innlent

Bæjarstjóranum á Akranesi hafnað

Gísli S. Einarsson.
Gísli S. Einarsson.

Gísla S. Einarssyni, bæjarstjóra á Akranesi, var hafnað í prófkjöri sjálfstæðismanna í bæjarfélaginu í gær. Hann var ekki meðal sex efstu. Gunnar Sigurðsson, forseti bæjarstjórnar, sigraði prófkjörið.

Gísli hefur verið bæjarstjóri á Akranesi frá því að Sjálfstæðisflokkurinn og Frjálslyndi flokkurinn mynduðu meirihluta eftir kosningarnar 2006. Hann var þingmaður fyrir Alþýðuflokkinn og Samfylkinguna á árunum 1993 til 2003.

458 greiddu atkvæði í prófkjörinu eða 55% þeirra sem voru á kjörskrá. Sex efstu frambjóðendurnir hlutu allir bindandi kosningu í sín sæti. Tíu gáfu kost á sér.

1. Gunnar Sigurðsson, forseti bæjarstjórnar, 234 atkvæði eða 53% uppsafnað fylgi í 1. sæti

2. Einar Brandsson, sölustjóri, 141 atkvæði eða 32% uppsafnað í 1.-2. sæti

3. Karen Jónsdóttir, formaður bæjarráðs, 156 atkvæði eða 36% uppsafnað í 1.-3. sæti

4. Eydís Aðalbjörnsdóttir, bæjarfulltrúi, 198 atkvæði eða 45% uppsafnað í 1-4. sæti

5. Ragnar Már Ragnarsson, byggingafræðingur, 239 atkvæði eða 54% uppsafnað í 1-5. sæti

6. Anna María Þórðardóttir, fótaaðgerðafræðingur, 272 atkvæði eða 62% uppsafnað í 1-6. sæti

Sjálfstæðisflokkurinn fékk fjóra bæjarfulltrúa kjörna í kosningunum fyrir fjórum árum, Samfylkingin tvo, Framsóknarflokkurinn einn, VG einn og Frjálslyndi flokkurinn einn. Síðar gekk Karen Jónsdóttir, bæjarfulltrúi Frjálslynda flokksins, til liðs við Sjálfstæðisflokkinn sem síðan hefur haft hreinan meirihluta í bæjarstjórn Akraness.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×