Formúla 1

19 ára Mexíkani ráðinn til BMW Sauber

Esteban Gutierrez er nítjan ára gamall og frá Mexíkó.
Esteban Gutierrez er nítjan ára gamall og frá Mexíkó. Mynd: Getty Images
Esteban Gutierrez frá Mexikó hefur verið ráðinn þróunar og varaökumaður BMW Sauber liðsins. Hann er með yngri ökumönnum sem hafa gengið til liðs við Formúlu 1 lið.

Gutierrez er 19 ára gamall og varð nýlega meistari í GP3 mótaröðinni með ART liðinu, sem er þekkt keppnislið. Kappinn vann fimm mót af sextán í mótaröðinni.

Peter Sauber, eigandi BMW Sauber hefur verið naskur að finna ökumenn og gaf Kimi Raikkönen m.a. fyrsta sjénsinn í Formúlu 1 á sínum tíma.

"Esteban er mjög þroskaður miðað við aldur og það hefur verið sönn ánægja að fá hann og hafa í herbúðum okkar", sagði Sauber í frétt á f1.com, en Gutierrez hefur verið tengdur liðinu á árinu. Hann prófaði einni BMW í fyrra á æfingu.

"Liðið hvatti hann í GP3 mótaröðinni, þar sem hann sýndi kænsku og við erum vissir um að hann mun þróast hratt. Hann er hógvær og námsfús og er vinsæll innan liðsins."

Gutierrez segir Formúlu 1 keppni sitt markmið.

"Ég hef lært mikið um fagmennskuna í Formúlu 1 og í september æfði ég líkamlegu hliðina með tveimur ökumönnum liðsins. Formúla 1 er mitt markmið og ég er þakklátur Peter Sauber fyrir traust hans á mér og hæfileikum mínum", sagði Gutierrez.

Hann mun keyra með fleiri ungliðum á sérstakri æfingu í Abu Dhabi í nóvember.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×