Íslenski boltinn

Freyr: Vildum helst fara út á land

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Freyr Alexandersson, þjálfari Vals.
Freyr Alexandersson, þjálfari Vals. Mynd/Valli

Freyr Alexandersson, þjálfari Íslands- og bikarmeistara Vals, sagði það krefjandi verkefni að þurfa að mæta Breiðabliki á útivelli strax í 16-liða úrslitum VISA-bikarkeppni kvenna.

Valur og Breiðablik mættust í úrslitum keppninnar í fyrra og þá vann Valur 5-1 sigur.

„Við vildum ekki endilega fá Breiðablik á þessu stigi keppninnar," sagði Freyr. „Helst hefðum við viljað fara út á land og þá til Sauðárkróks. Þá hefði Siggi Donna boðið okkur í kaffi og svo er alltaf gaman fyrir liðið að fara saman í rútuferð."

„En það er óneitanlega sérstakt að mæta Breiðabliki nú. Að sama skapi er þetta sjarminn við bikarkeppnina. Í öðrum leikjum mætast minni lið og eiga þá möguleika á að fara í úrslitin."

Hann segir það alls ekki svo að það lið sem vinni þennan leik fari endilega alla leið í keppninni.

„Það er aldrei hægt að sjá fyrirfram hvaða lið fara alla leið. Ég vona að fyrst og fremst verði þetta flottur bikarúrslitaleikur sama hvaða lið keppa í honum."

Hann segir það gott fyrir sitt lið að fá krefjandi verkefni í bikarnum. „Leikirnir verða ekki mikið erfiðari en þetta. Það hefði líka verið erfitt að mæta Þór/KA á útivelli. En þetta er góð áskorun og það er gott að halda leikmönnum á tánum með krefjandi leikjum."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×