Innlent

Einokun fest í sessi

Margrét Kristmannsdóttir er formaður Samtaka verslunar og þjónustu. Samtökin gagnrýna harðlega frumvarp landbúnaðarráðherra um breytingar á búvörulögum.
Margrét Kristmannsdóttir er formaður Samtaka verslunar og þjónustu. Samtökin gagnrýna harðlega frumvarp landbúnaðarráðherra um breytingar á búvörulögum.
Með mjólkurfrumvarpi landbúnaðarráðherra verður einokun fest í sessi þar sem nær útilokað verður fyrir nýja aðila að hefja starfsemi með úrvinnslu á mjólkurafurðum. Þetta er mat Samtaka verslunar og þjónustu en samtökin gera alvarlegar athugasemdir við frumvarpið.

Samkvæmt frumvarpinu verða lagðar fjársektir á mjólkursamlög fyrir að taka við mjólk frá framleiðanda sem ekki hefur svokallað greiðslumark eða eins konar framleiðslukvóta. Samkeppniseftirlitið hefur gagnrýnt frumvarpið og sagt það takmarka samkeppni á mjólkurmarkaði og festa þannig enn frekar í sessi samkeppnishömlur, neytendum og bændum til tjóns.

Samtök verslunar og þjónustu ítreka andstöðu sína við frumvarpið og benda á að í því felist eitt alvarlegasta afturhvarf til einokunar sem sést hefur um langa hríð jafnframt því sem samtökin lýsa þeirri skoðun sinni að hin fyrirhugaða lagasetning rúmist ekki innan þess ramma sem stjórnarskráin setur um skerðingu á atvinnufrelsi.




Tengdar fréttir

Festir í sessi fákeppni á mjólkurmarkaði

Samkeppniseftirlitið gerir alvarlegar athugasemdir við frumvarp um breytingar á búvörulögum sem lagt hefur verið fram. Í fréttatilkynningu um málið segir að með frumvarpinu sé fyrirhugað að lögfesta refsifyrirkomulag gagnvart tilteknum rekstraraðilum sem hafi hug á að framleiða mjólkurvörur fyrir íslenska neytendur.

Þingmaður Framsóknar: Ekkert nýtt í umsögn Samkeppniseftirlitsins

Fulltrúi Framsóknarflokks í landbúnaðarnefnd segir ekkert nýtt í umsögn Samkeppniseftirlitsins um mjólkurfrumvarp landbúnaðarráðherra, en eftirlitið gerir alvarlegar athugasemdir við frumvarpið. Hann segir að reglur þurfi að gilda um markaðinn og óheft samkeppni og markaðshyggja hafi ekki farið vel með Vesturlönd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×