Innlent

Isavia samþykkir að opna flugvöllinn á Húsavík

Flugfélag Íslands hefur farið þess á leit við Isavia ohf. að flugvöllurinn á Húsavík verði opnaður í dag 13.ágúst 2010 fyrir flugvélar Flugfélagsins. Isavia hefur samþykkt að verða við þessari beiðni og hefur því flutt slökkvibifreið sína frá flugvellinum á Bakka til Húsavíkur.

Í tilkynningu segir að viðbúnaðarþjónustan á Húsavíkurflugvelli verður sinnt af starfsmönnum Isavia sem hafa fengið alla þá þjálfun sem krafist er. Ekki verður tekinn mannafli af Keflavíkurflugvelli né Reykjavíkurflugvelli.

Flugmálastjórn Íslands hefur samþykkt aukna þjónustu Isavia á Húsavíkurflugvelli hvað varðar slökkvi- og björgunarþjónustu.

Að gefnu tilefni vill Isavia taka fram að á flugöryggi verður ekki slakað, hvorki í dag né aðra daga. Umræddar verkfallsaðgerðir eru tilkomnar vegna kjaradeilu LSS við launanefnd sveitarfélaga, Isavia er ekki aðili að þessari deilu. Starfsmenn Isavia á flugvellinum á Húsavík sem sinna munu viðbúnaðarþjónustu eru ekki félagar í LSS og eru því ekki í verkfallsaðgerðum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×