Innlent

Gjaldskrárhækkanir OR ná ekki til stóriðjunnar

Stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur sér fyrir sér verulegar gjaldskrárhækkanir til að mæta erfiðri rekstrarstöðu fyrirtækisins. Hækkunin á ekki að ná til stóriðju, þar sem orkuverð til hennar er bundið samningum

Haraldur Flosi Tryggvason, stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur, segir ekkert liggja fyrir um umfang og fyrirkomulag þessara gjaldskrárhækkana, en vonast til að myndin verði orðin mun skýrari á stjórnarfundi Orkuveitunnar á föstudag. Haraldur segist telja að Orkuveitan hafi nokkuð svigrúm til hækkana, meðal annars þar sem verð á hita og rafmagni hafi ýmist lítið eða ekkert hækkað frá árinu 2005.

„Öll gögn benda til þess að þetta þurfi að vera talsvert eða veruleg hækkun. Stjórnin á ennþá eftir að fjalla um hversu há hún verði og með hvaða hætti hún kom inn. Hvort hún komi hratt inn eða dreifist yfir lengri tíma," segir Haraldur.

Hann vill ekkert segja til um hversu miklar hækkanirnar verði. „Þetta eru flóknar ákvarðanir og best að geyma þær fyrir stjórn til að fjalla um áður en lengra er haldið."

Samkvæmt upplýsingum frá Orkuveitunni eyðir meðalheimili nærri hundrað þúsund krónum í hita og rafmagn samanlagt árlega, svo gjaldskrárhækkun upp á eitt prósent veldur kostnaðarauka upp á þúsund krónur á ári. Þá er vægi hita og rafmagns í vísitölu neysluverðs um 2,7 prósent, svo gjaldskrárhækkun hjá Orkuveitunni gæti haft nokkur áhrif í verðbólguátt með tilheyrandi áhrifum á verðtryggð lán.

Aðspurður hvort orkuverð til stóriðju verði hækkað segir Haraldur: „Það heyrir undir sérstaka samninga sem að stjórn breytir ekki einhliða á sínum fundum en fylgir öðrum mælikvörðum svo sem eins og álverði." Hann segir ekki í spilunum að gera breytingar á þessum samningum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×